Fréttir

Hér má sjá fréttaskot sem tengjast starfsemi félagsins.
Áttan komin í gagnið

Áttan komin í gagnið

02.05.2024

Fjarskipti eru mikilvægur hluti af raforkukerfi landsins þar sem framleiðsla og flutningur raforku er háð öruggum fjarskiptum. Fjarskipti fyrir raforkukerfin eiga sér langa sögu.

Fram til ársins 2000 var fjarskiptastarfsemin hluti af starfsemi Landsvirkjunar.  Á stofnfundi sem haldin var þann 10. október árið 2000 var Fjarski formlega stofnaður sem dótturfélag Landsvirkjunar og tók við uppbyggingu og rekstri fjarskipta fyrir raforkukerfið. 

Á hluthafafundi þann 12. desember árið 2011 var eignarhaldi félagsins breytt og það varð í sameiginlegri eigu Landsvirkjunar og Landsnets.  Á sama tíma voru nýjar samþykktir fyrir félagið samþykktar þar sem nafni félagsins var breytt úr Fjarska í Orkufjarskipti. 

Á þessum tímamótum var einnig ákveðið að hefja uppbyggingu „Áttunnar“, landsdekkandi ljósleiðaranets sem væri byggt upp fyrir þarfir raforkukerfisins.

Uppbygging Áttunnar hefur því staðið yfir í rúm 12 ár og nú í mars árið 2024 má segja að Áttan sem heild hafi verið tekin í gagnið.  Áttan er landsdekkandi net ljósleiðara sem tengir saman alla helstu staði raforkukerfisins.  Ljósleiðaranetið er að langstærstum hluta í eigu Orkufjarskipta en að auki leigja Orkufjarskipti ljósþræði frá þriðja aðila á ákveðnum stöðum. Þess utan eiga Orkufjarskipti ljósleiðarastrengi utan Áttunnar sem einnig eru í notkun til að þjóna þörfum raforkukerfisins fyrir fjarskipti.  Auk ljósleiðara eiga Orkufjarskipti og reka fjarskiptabúnað á um 80 stöðum á landinu sem þjóna raforkukerfinu.

Nú þegar er Áttan komin í gagnið er mikilvægum áfanga náð.  Framundan eru fjölbreytt verkefni við áframhaldandi uppbyggingu og rekstur fjarskiptakerfa og fjarskiptainnviða fyrir raforkukerfin í landinu.

Í ár verða 24 ár frá því uppbygging og rekstur fjarskipta fyrir raforkukerfið var sett í sjálfstætt félag og það félag er Orkufjarskipti.

Hlutverk Orkufjarskipta er skýrt, að byggja upp og reka fjarskipta innviði og fjarskiptakerfi fyrir raforkukerfin í landinu á öryggismiðuðum forsendum.

Þetta er gert með öryggi, áreiðanleika og hagkvæmni að leiðaraljósi.

Félagið er að stærstum hluta í jafnri eigu Landsvirkjunar og Landsnets en á síðasta ári bættist Rarik í hóp eigenda félagsins.

Þessum merka áfanga að Áttan sem heild sé formlega komin í gangið verður fagnað í dag, 2. maí á skrifstofu félagsins að Krókhálsi 5c.

Leit