Lagningu ljósleiðara á milli Reyðarfjarðar og Berufjarðar er lokið
Framkvæmdir hófust í september 2017 og lauk í nóvember 2019. Með lagningunni er lokið tengingum annarsvegar frá tengistað Orkufjarskipta í Reyðarfirði að Ósi í Breiðdal, rúmlega 64 km leið og hins vegar í Berufirði frá Núpi að Þiljuvöllum um 9 km leið.
Hönnun lagnaleiðarinnar var í höndum Orkufjarskipta. Framkvæmdaleyfi Fjarðabyggðar var veitt haustið 2017 og lá þá fyrir samþykki landeigenda ásamt jákvæðum umsögnum Minjastofnunar, Fiskistofu, veiðifélags Dalsár og Vegagerðar. Fornleifaskráning var gerð fyrir lagnaleiðina. Framkvæmdaleyfi Djúpavogshrepps lá fyrir haustið 2018 fyrir framkvæmdum í Berufirði.
Steypustöð Skagafjarðar sá um framkvæmdina frá tengistað í Reyðarfirði að Hvammi í Fáskrúðsfirði og einnig í Berufirði. Austfirskir verktakar sáu um framkvæmdina frá Hvammi í Fáskrúðsfirði að Óseyri í Stöðvarfirði. Frá Stöðvarfirði að Breiðdal var verkefnið unnið í samstarfi við Rarik, sem lagði frá tengivirkinu í Stöð að tengistað sínum utan við bæinn Ós í Breiðdal, en verktaki í þeirri framkvæmd var Þjótandi.
Samkvæmt samningum við sveitarfélögin voru samhliða lagðar 22 heimtaugar, sem sveitarfélögin greiddu.
Myndin til vinstri er tekin meðan á framkvæmd stóð á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og myndin til hægri sýnir ummerkin klukkustund síðar.
Birt á vef 3. desember 2019. Uppfært 6. janúar 2020.